Lúðrasveitir skólans spila í Hörpu

Næst komandi sunnudag þann 15. nóvember heldur SÍSL (Samtök íslenskra skólalúðrasveita) maraþontónleika undir yfirskriftinni „Óskalög þjóðarinnar í blásarabúning“ í Norðurljósasal Hörpu.

Hljómsveitir víðs vegar að af landinu leika efnisskrá fyllta íslenskum lögum, með áherslu á þau lög sem kepptu um titilinn “Óskalög þjóðarinnar” á RÚV síðasta vetur. Búast má við að lög eins og Dimmar rósir, Bláu augun þín og Draumur um Nínu muni hjóma á tónleikunum í útsetningum fyrir blásarasveitir, að ógleymdu óskalaginu sjálfu,  Þannig týnist tíminn, eftir Bjartmar Guðlaugsson.

Tvær lúðrasveitir skólans taka þátt, lúðrasveit C og lúðrasveit D. Sú fyrri leikur kl.15 undir stjórn Hörpu Jóhannsdóttir og sú seinni kl.16 undir stjórn Karenar Sturlaugsson og í báðum sveitum aðstoðar Þovaldur Halldórsson.

Tónleikarnir hefjast klukkan 11:00 og standa til klukkan 18:00. Hver hljómsveit hefur hálftíma til umráða og verður skipt um hljómsveit á heila og hálfa tímanum allan daginn. Áhorfendum er boðið að sitja eins lengi og þeim hentar og fylgjast með gróskunni í íslensku blásaralífi. Aðgangur er ókeypis og öllum opinn.