Stoðtími í Kjarna

Nemendum stendur nú til boða að koma í stoðtíma á miðvikudögum kl. 18:15-19:00 til að vinna í tónfræðihluta Kjarnanámsins.

Jóhanna María kjarnakennari verður til staðar til að aðstoða nemendur eftir þörfum hvers og eins.
Stoðtíminn er val hvers nemanda og mæting er þar af leiðandi ekki skráð.

Ef einhver sem hyggst nýta sér tímana en kemst ekki kl.18:15 þá getur hann samt sem áður mætt, nýtt sér það sem eftir er af tímanum og fengið aðstoð hjá Jóhönnu Maríu.

Kennsla fellur niður 4. febrúar

Seinni bólusetning leikskólabarna og 6-11 ára barna í Reykjanesbæ (1.-6. bekkur) mun fara fram hér í Tónlistarskólanum n.k. föstudag, þann 4. febrúar.

Hvíldaraðstaða/biðaðstaða að lokinni bólusetningu verður í Stapa, Hljómahöll eins og í fyrri bólusetningunni.

Vegna þessa fellur öll kennsla í Tónlistarskólanum niður þann dag, bæði hljóðfærakennslan í grunnskólunum og öll kennsla hér í heimastöð skólans að Hjallavegi 2.

Þetta á líka við um kvöldtíma.

Þegar bólusetningunum er lokið, verður skólinn þrifinn vel og vandlega og öll svæði og stofur sem notaðar verða í bólusetningunni sótthreinsaðar.

Skólinn verður því tilbúinn fyrir nemendur og starfsfólk strax á mánudagsmorgun.

Þótt kennsla Tónlistarskólans falli niður á föstudaginn, þá verður skrifstofa skólans opin og við skólastjórarnir til taks, en þá eingöngu í gegn um tölvupóst eða síma.

Aðrar gestakomur en þær sem snúa að bólusetningunum eru óheimilar.

Kjarni og lúðrasveit

Í ljósi nýrra reglna um sóttvarnir í skólum, þá færum við kennslu í Kjarna úr fjarkennslu í staðkennslu frá og með næsta mánudegi, 31. janúar.
Tímasetningar kennslustunda verða þær sömu og var áður en fjarkennslan hófst.

Það sama á við um lúðrasveitaæfingar, þær hefjast að nýju frá og með mánudeginum 31. janúar.

Kennsla fellur niður 10. jan

Tekin hefur verið sú ákvörðun að fyrirhugaðar Covid-bólusetningar 6-11 ára barna í Reykjanesbæ (1.-6. bekkur) fari fram mánudaginn 10. janúar n.k. og bólusett verði í Tónlistarskólanum.
Hvíldaraðstaða/biðaðstaða að lokinni bólusetningu verður í Stapa, Hljómahöll.

Vegna þessa fellur öll kennsla í Tónlistarskólanum niður mánudaginn 10. janúar, bæði hljóðfærakennslan í grunnskólunum og öll kennsla hér í aðalstöðvum skólans að Hjallavegi 2.
Það á við um alla hljóðfæratíma og söngtíma, allar tónfræðagreinar (Kjarni og slíkar greinar) og allt samspil. Þetta á líka við um alla kvöldtíma.
Þegar bólusetningunum er lokið, verður skólinn þrifinn vel og vandlega og öll svæði og stofur sótthreinsaðar.

Kennsla verður því með eðlilegum hætti á þriðjudaginn.
Þótt kennsla Tónlistarskólans falli niður á mánudaginn, þá verður skrifstofa skólans opin og við skólastjórarnir til taks, en þá eingöngu í gegn um tölvupóst eða síma.
Aðrar gestakomur en þær sem snúa að bólusetningunum eru óheimilar.

Sóttvarnarreglur 2022

Kennsla hefst aftur samkvæmt stundaskrá þriðjudaginn 4. janúar.
Ef einhverjar breytingar verða á hóptímum munu kennarar láta sína nemendur vita, fylgist vel með skilaboðum þeirra.
Hér að neðan eru gildandi sóttvarnarreglur til og með miðvikudeginum 12. janúar.

Nemendur og aðrir
· Hámarksfjöldi nemenda í sama rými er 50
· Fjöldatakmörkun gildir ekki í almennu rými
· Blöndun nemenda/-hópa er heimil
· Nemendur fæddir 2005 og fyrr skulu bera andlitsgrímu, á göngum og í kennslustund
· Að lágmarki 1 meter skal vera á milli nemenda í kennslustofum og á hópæfingum/-tímum
· Aðstandendur Suzukinemenda sem fylgja þeim í náminu, skulu bera andlitsgrímu
· Nemendur spritti hendur áður en farið er í kennslustund
· Við hvetjum nemendur til að þvo sér oft og vel um hendur
· Séu nemendur með einkenni covid-smits, skulu þeir ekki mæta í tónlistarskólann
· Gestakomur eru ekki heimilar nema brýna nauðsyn beri til og þá gildir grímuskylda



Tónvísir, jólatónleikar og jólafrí

Í næstu viku hefst jólatónleikaröðin okkar og í ár verða þeir alls 32.
Tónleikarnir verða með svipuðu sniði og venjulega þ.e. að kennarar eða deildir halda sína tónleika hver fyrir sig. Vinsamlegast fylgist vel með tilkynningum sem koma frá kennurum varðandi tónleikana.
Hér að ofan í flipanum Jólatónleikar 2021 er hægt að nálgast dagskrá þessara tónleikaraðar.

Vegna samkomutakmarkana verða engir gestir, en þess í stað munum við streyma tónleikunum á YouTube-rásinni okkar hér líkt og við höfum gert undanfarið.

Fréttabréf okkar, Tónvísir, er einnig komið út og hvetjum við ykkur til að lesa það yfir hér

Jólafrí hefst mánudaginn 20. desember og stendur til 3. janúar.
Kennsla hefst í öllum greinum þriðjudaginn 4. janúar.

Ný sóttvarnarreglugerð

  • Allir fæddir 2005 og fyrr: Nálægðarmörk skulu vera 1 meter, ef ekki er hægt að viðhafa þau mörk, þá gildir grímuskylda.
  • Allir fæddir 2005 og fyrr, skulu bera grímu þegar gengið er í kennslustofu, þar til allir eru sestir/komnir á sinn stað.
  • Allir spritta hendur áður en gengið er inn í kennslustund.
  • Nemendur á grunnskólaaldri eru undanþegnir 1 metra fjarlægðarreglu og grímuskyldu, en við hvetjum þau, sem og alla okkar nemendur til fyllstu varkárni og persónulegra sóttvarna.

Varðandi smitgát, þá mega nemendur mæta í skóla, en þeir þurfa að gæta vel að persónulegum smitvörnum og forðast að vera í margmenni að óþörfu. Við getum hjálpað til með persónulegu smitvarnirnar. Þ.e. að passa uppá að nemendur þvoi sér um hendur og noti handsprittið sem er í boði hér um allan skólann.

Nemendur í smitgát eru beðnir um að setja á sig grímu þegar þeir koma inn í skólann og hafi hana á sér þegar þeir mæta inn í stofu í t.d. tónfræðagreinum og samspil/hljómsveit. Blásarar geta tekið niður grímu þegar kennslustund hefst.

Mjög mikilvægt að forráðamenn og nemendur láti kennara vita af því ef nemandi er í smitgát.

Tónleikar: Frá og með næstu tónleikum, sem verða þri. 16. nóv. kl.17.30, verða ekki gestir í sal. Tónleikum verður eingöngu streymt, a.m.k. til og með 8. desember, nema það verði gerðar breytingar í aðra átt fyrir þann tíma.

Gestir: Aðstandendur og aðrir gestir sem koma hér í skólann þurfa að bera grímu meðan þeir eru hér í húsi. Við óskum samt eftir því að utanaðkomandi komi ekki hér inn nema af brýnni nauðsyn.

Sjókonur og snillingar

Tónlistarskóli Reykjanesbæjar er í spennandi samstarfsverkefni með hópi kvenna í tónlist sem kalla sig ReykjavíkBarokk.
Samstarfsverkefnið er tónlistarhátíð sem hefur fengið heitið Kona forntónlistarhátíð. Sjá Facebook viðburð hér

Hátíðinni er annars vegar ætlað að vekja athygli á konum fyrri alda í Evrópu sem stunduðu hljóðfæraleik og tónsmíðar en fengu litla sem enga athygli fyrir verk sín. Í þeim þætti hátíðarinnar leika nokkrir hljóðfæranemendur skólans á tónleikum í Bergi með ReykjavíkBarokk.
Hins vegar er hátíðinni ætlað að draga fram í dagsljósið kveðskap íslenskra kvenna fyrr á öldum, sem tengdust sjósókn og/eða tengdum störfum í landi. Í því sambandi verður fluttur kveðskapur eftir Látra-Björgu og Hallgrím Pétursson. Sá þáttur forntónlistarhátíðarinnar nefnist Sjókonur og snillingar og er glænýtt tónleikhús. Það er í þeim þætti, Sjókonum og snillingum, sem nemendur í Kjarna 1 munu taka þátt í og hafa verið að kynnast þessum kveðskap í Kjarnatímum undanfarið.

Um helgina, 30. – 31. okt, er æfingahelgi með ReykjavíkBarokk hópnum vegna þessa verkefnis. Sjá æfinga- og tónleikaáætlun hér. Helgina þar á eftir, 6. og 7. nóvember eru æfingar, tvennir tónleikar á vegum ReykjavíkBarokks-hópsins í Bergi og síðan frumsýning tónleikhússins Sjókonur og snillingar í Stapa sunnudaginn 7. nóvember. Sjá hér

ATH grímuskylda er fyrir alla gesti eldri en 15 ára.

Laugardagur 6. nóvember:
Kl. 13:00  Berg: Tónleikar
Ólöf Sigursveinsdóttir, nýr sellókennari við TR og sellóleikari í ReykjavíkBarokk, leikur Sellósvítu nr. 3 í C dúr eftir Johann Sebastian Bach.
Gengið inn um Tónlistarskólann.

Sunnudagur 7. nóvember:
Kl. 14:00  Berg: Tónleikar
ReykjavíkBarokk ásamt hljóðfæranemendum úr Tónlistarskólanum flytja tónlist eftir Maddalenu Sirmen og Elizabeth J. de la Guerre.
Gengið inn um Tónlistarskólann

Kl. 16:00  Stapi: Sjókonur og snillingar – Tónleikhús
*ATH þessum tónleikum verður einnig streymt á Youtube rás skólans
ReykjavíkBarokk, Leikfélagið Fljúgandi fiskar o.fl. listamenn, ásamt nemendum úr Kjarna 1, sem hafa mikilvægt hlutverk í sýningunni.
Gengið inn um aðalinngang Stapa.

Vetrarfrí

Mánudaginn 18. okt og þriðjudaginn 19. okt er vetrarfrí hjá okkur í Tónlistarskólanum og fellur öll kennsla niður. Vonandi náið þið að hlaða batteríin í fríinu og við hittumst hress miðvikudaginn 20. okt.