Hvatningaverðlaun 2021-2022

Ár hvert veitir Íslandsbanki í Reykjanesbæ hvatningaverðlaun þeim nemanda eða nemendum sem hafa sýnt mikla hæfileika og dugnað í námi hjá okkur síðustu ár og borgar bankinn skólagjöld næsta skólaárs.
Þetta er í sextánda sinn sem Hvatningarverðlaun Íslandsbanka til nemanda við Tónlistarskóla Reykjanesbæjar eru veitt, og hefur þetta samstarf bankans og Tónlistarskólans verið afar ánægjulegt og farsælt.

Sá nemandi sem hlýtur Hvatningarverðlaun Íslandsbanka fyrir skólaárið 2021-2022 er Magnús Már Newman, nemandi í slagverksleik og rytmísku píanói. Magnús er gæddur sérlega góðum tónlistarhæfileikum og hann hefur þroskað þá einstaklega vel í námi sínu við Tónlistarskólann. Hann hefur stundað tónlistarnám sitt af miklum dugnaði og samviskusemi, bæði hljóðfæranámið og allar hliðargreinar. Þegar hæfileikar og dugnaður fara saman, þá verður árangurinn góður.
Á síðustu misserum hefur Magnús verið í mjög umfangsmiklu námi við Tónlistarskólann, bæði í tvöföldu hljóðfæranámi, nokkrum hljómsveitum og minni samspilum sem og stundað tónfræðagreinarnar af kappi og er kominn vel á veg inn í framhaldsnáms-stigið í þeim námsgreinum.
Magnús hefur verið leiðandi slagverksnemandi skólans um nokkurt skeið og hefur axlað þá ábyrgð af stakri prýði. Hann hefur alltaf verið duglegur og jákvæður í skólastarfinu, sóst í að taka að sér verkefni til að þroska sig í tónlistinni og mjög oft komið fram opinberlega fyrir hönd skólans, bæði einn og í minni sem stærri hópum.
Magnús Már á mikla framtíð fyrir sér á tónlistarsviðinu og vonandi verður sá heiður að hljóta Hvatningarverðlaun Íslandsbanka, til þess að efla hann enn frekar á því sviði.

Skólalok

Síðasti kennsludagur þessa skólaárs er miðvikudagurinn 26. maí, eftir það taka við starfsdagar og endar skólaárið með skólaslitum sem fara fram í Stapa mánudaginn 31. maí kl.18:00. Vegna fjöldatakmarkana er aðeins gert ráð fyrir starfsfólki skólans, nemendum sem luku áfangaprófum, nemendum sem flytja tónlistaratriði og handhafa Hvatningarverðlaunum Íslandsbanka. Fyrir aðra verður hægt að fylgjast með beinu streymi á Youtube-rás skólans hér.
Takk fyrir veturinn og gleðilegt sumar!

Endurnýjun og nýjar umsóknir

Nú er heppilegur tími til að sækja um fyrir skólaárið 2021-2022.
Við getum bætt við okkur nokkrum nýjum nemendum á ýmis hljóðfæri og viljum við sérstaklega vekja athygli á kynningarnámi á blásturshljóðfæri. Það nám er ætlað nýjum nemendum í 3. – 5. bekk á málm- og tréblásturshljóðfæri. Skólagjöldin eru einungus 60.000kr. og er hljóðfæraleiga innifalin. Allar helstu upplýsingar um það nám er að finna hér að ofan undir hlekknum „Kynningarnám á blásturshljóðfæri

Sótt er um allt nám undir hnappnum „Endurnýjun og nýjar umsóknir“ hér að ofan og þar endurnýja núverandi nemendur skólans einnig umsókn sína og staðfesta skólavist fyrir næsta skólaár.

Sumardagurinn fyrsti og ársprófavika

Fimmtudaginn 22. apríl er Sumardagurinn fyrsti og eins og síðustu ár er það frídagur.

Vikuna 26. – 30. apríl er ársprófavika í Tónlistarskóla Reykjanesbæjar. Þá viku fara allir nemendur í próf á sínu hljóðfæri og falla einkatímar niður. Hóptímar, s.s. kjarni og hljómsveitir, eru hins vegar á sínum stað.
Kennarar láta sína nemendur hvenær og hvar þau eiga að mæta í próf.

Skólastarf eftir páska

Kæru nemendur og forráðamenn. Við vonum að þið hafið átt gott páskafrí og eruð tilbúin í rútínuna.
Á morgun þriðjudag, 6. apríl, er starfsdagur hjá okkur og hefst kennsla samkvæmt stundaskrá á miðvikudaginn 7. apríl. Öll kennsla er leyfð í húsinu hjá okkur og úti í grunnskólunum með smávægilegum takmörkunum.
Hlökkum til að sjá ykkur!

Lok og læs!

Kæru nemendur, forráðamenn og aðrir velunnarar

Vegna tilskipana frá sóttvörnum og ráðuneytum og í samráði við fræðsluyfirvöld Reykjanesbæjar, þá verður Tónlistarskólinn lokaður og þar af leiðandi engin kennsla á morgun fimmtudaginn 25.mars og föstudaginn 26.mars.

Eftir það tekur við páskafrí. Upplýsingar um hvaða skipulag tekur við eftir páskafrí koma síðar þegar ljóst er hvaða reglur gilda þá um skólahald.
Gleðilega páska!

Tónleikar í mars

Ásamt almennum nemendatónleikum þá eru allmargir stærri tónleikar á dagsskrá hjá okkur í mars.
Árlegu stórtónleikar Forskóla 2 og lúðrasveitar C fara fram fimmtudaginn 18. mars kl.17 og kl.18 í Stapa. Tónleikarnir verða áhorfendalausir en hægt að fylgjast með þeim á Youtube-rás skólans.

Söng- og hljómborðsdeild leiða saman hesta sína með tónleikum föstudaginn 19. mars kl.17:30 í Bergi.
Tónleikar framhaldsnemenda fara svo fram mánudaginn 22. mars og þriðjudaginn 23. mars, báðir byrja þeir kl.19:30 og eru í Bergi.
Þessum tónleikum verður streymt á Youtube-rás skólans hér

Ný reglugerð

Neðangreint er skv. 5. gr. reglugerðar um skólastarf, sem kveður á um starfsemi tónlistarskóla. Gildistími er frá og með 24. febrúar til og með 30. apríl 2021.

 • Öll tónlistarkennsla er heimil með þeim takmörkunum sem koma fram hér að neðan.
 • Einstaklingskennsla í hljóðfæraleik og söng er heimil með 1 metra nálægðartakmörkun milli nemenda og kennara. Sé það ekki hægt skal kennari nota grímu.
 • Nemendur á leikskóla- og grunnskólaaldri eru undanþegnir nálægðartakmörkunum sem og grímuskyldu.
 • Sé ekki unnt að halda 1 metra fjarlægð milli kennara og nemenda á framhaldsskólaaldri og eldri, skulu báðir aðilar nota grímu.
 • Geti starfsfólk ekki haldið 1 metra fjarlægð sín á milli skal það bera andlitsgrímur. Það á við um öll rými og svæði í skólanum.
 • Ekki skulu vera fleiri en 50 starfsmenn í hverju rými
 • Fjöldi nemenda, óháð aldri, og starfsmanna skal ekki fara yfir 150 í hverju rými.
 • Hljómsveita-, samspils- og samsöngsstarf er heimilt, en þó háð þeim fjöldatakmörkunum sem getið er hér að ofan.
 • Kennurum og öðru starfsfólki tónlistarskóla er heimilt að fara á milli hópa. Þeir skulu þó ekki vera fleiri en 50 í sama rými.
 • Ef ekki er hægt að halda 1 metra nálægðartakmörkunum milli nemenda og kennara/starfsfólks í hópastarfi skal kennari/starfsfólk nota grímu.
 • Blöndun nemenda milli hópa er heimil í öllum aldurshópum með ofangreindum skilyrðum sóttvarna og fjöldatakmörkunum.
 • Allt að 200 gestum er heimilt að vera viðstaddir tónleika á vegum skólans, en háð skilyrðum 4. mgr., 3. gr. reglugerðar um fjöldatakmarkanir, útg. 23. febrúar s.l.
 • Foreldrar, aðstandendur og aðrir utanaðkomandi skulu sýna aðgát þegar þeir koma inn í skólabyggingar og gæta vel að sóttvörnum.
 • Þeir skulu gæta a.m.k. 1 metra nálægðartakmörkun sín á milli og gagnvart starfsfólki og bera andlitsgrímur.
 • Allir, bæði starfsfólk og nemendur, skulu stunda góðan handþvott og sprittun. Starfsfólk tónlistarskólans sér til þess að snertifletir séu sótthreinsaðir eftir hvern hóp og á milli einstaklingskennslustunda.
 • Snertifletir á almennum svæðum í skólanum eru sótthreinsaðir reglulega yfir daginn.

Þematónleikar blástursdeildar

Nú í febrúar hafa kennarar og nemendur blástursdeildar skólans einblínt á tvö skemmtileg þemu; lög tengd svæðinu og íslensk júróvisjón lög. Til að setja endapunkt á þennan þemamánuð verða tvennir tónleikar mánudaginn 22. febrúar, þeir fyrri hefjast kl.16 og seinni kl.17. Engir áhorfendur eru leyfðir í salnum en öllum er velkomið að fylgjast með á Youtube-rás skólans hér.