Fiðlu- og píanó tónleikar í Bergi, 16. apríl 2024

Tónlistarskóli Reykjanesbæjar stendur fyrir fiðlu- og píanótónleikum í Bergi, Hljómahöll, þriðjudaginn 16. apríl kl.19:30. Fram koma Joaquín Páll Palomares fiðluleikari og Sebastiano Brusco píanóleikari. Á efnisskránni eru verk eftir W.A. Mozart, B. Bartók, F. Chopin, V. Monti og C. Franck.

Við hvetjum alla eindregið til að mæta á þessa frábæru tónleika. Um er að ræða einstakt tækifæri, aðgangur er ókeypis og allir velkomnir. Gengið inn um inngang Tónlistarskólans.

Páll Palomares, sem er ættaður héðan úr Reykjanesbæ, er einn af fremstu fiðluleikurum landsins. Hann hóf fiðlunám sex ára gamall undir handleiðslu foreldra sinna, Unnar Pálsdóttur og Joaquín Palomares. Hann gegnir nú stöðu leiðara 2. fiðlu í Sinfóníuhljómsveit Íslands en áður gegndi hann sömu stöðu hjá Randers Kammerorkester í Danmörku. Páll hefur leikið fjölda einleikskonserta með hljómsveitum á íslenskri og erlendri grundu og ber þar hæst að nefna fiðlukonserta eftir Sibelius og Tchaikovski með Sinfóníuhljómsveit Íslands, fiðlukonsert Brahms með Sinfóníuhljómsveit Árósa, fiðlukonsert eftir Beethoven með Sinfóníuhljómsveit Torrevieja, fiðlukonsert eftir Mozart með Orquesta Sinfónica de la Región de Murcia og Árstíðirnar eftir Vivaldi með Orchestra Femminile Italiana. Páll er jafnframt virkur í kammertónlist og hefur haldið tónleika á Íslandi og víða í Evrópu.

Páll Palomares

Páll hefur hlotið margvísleg verðlaun á ferli sínum. Hann var sigurvegari íslensku keppninnar ,,Ungir einleikarar”  árið 2007, hlaut verðlaun í alþjóðlegu keppninni ,,Danish String Competition” árið 2014 auk fjölda annarra verðlauna. Páll lauk meistaragráðu og síðar einleikaranámi við Konunglega Tónlistarháskólann í Kaupmannahöfn árið 2018 og bakkalárgráðu frá hinum virta Hochschule für Musik „Hanns Eisler“ í Berlín árið 2013.

Páll leikur á fiðlu smíðaða af Nicolas Gagliano árið 1761.

Sebastiano Brusco

Sebastiano Brusco píanóleikari er fæddur í Róm. Hann hóf tónlistarnám mjög ungur og miklir tónlistarhæfileikar hans komu fljótt í ljós og snemma á námsferlinum fékk hann sérstaka viðurkenningu frá F. Morlacchi tónlistarskólanum í Perugia á Ítalíu, þar sem hann stundaði nám. Sebastiano hefur unnið til margra verðlauna, bæði í heimalandinu sem og víðar, og má þar nefna fyrstu verðlaun í Carlo Soliva alþjóðlegu keppninni (1998), fyrstu verðlaun í Gubbio Festival keppninni, verðlaun í keppninni “Provincia di Caltanissetta”, auk margra annarra.

Hann hefur komið víða fram sem einleikari með sinfóníuhljómsveitum víða um heim og leikið undir stjórn hljómsveitarstjóra á borð við R. Chailly, C. Scimone, R. Hickox, F. Totan, R. Gandolfi og V. Antonellini.

Sebastiano hefur gefið út geisladisk með öllum “impromptus” verkunum fyrir einleikspíanó eftir F. Schubert og er þessa dagana að taka upp allar ballöður F. Chopin og nokkrar noktúrnur, etýður og pólónesur eftir sama tónskáld.

Tónlistarskólinn á fullu!

Helgina 9. til 10. mars var mikið um að vera hjá Tónlistarskóla Reykjanesbæjar.

Hér sést hinn glæsilegi hópur Forskóla 2 ásamt hljómsveit

Á laugardeginum var margt um manninn í skólanum þar sem þrjú stór verkefni voru í gangi í einu.
Forskóli 2, sem eru sjö ára börn úr grunnskólum Reykjanesbæjar, héldu stutta tónleika kl.10:30 í Rokksafni Íslands við undirleik hljómsveitar sem skipuð var kennurum skólans, fyrrum nemendum sem komnir eru á háskólastig í tónlist og núverandi nemendum sem eru langt komnir í tónlistarnámi sínu. Að tónleikunum loknum fóru forskólanemendurnir yfir í Tónlistarskólann þar sem þeir fengu verklega kynningu á þeim hljóðfærum sem eru í boði fyrir unga nemendur að læra á. Það voru meðlimir hljómsveitarinnar sem sáu um hljóðfærakynninguna sem er alltaf mikil upplifun forskólanemendurna. Þessi dagskrá stóð til kl. 12:15.

Á sama tíma og fram til kl.13:00 var sérstakur æfingadagur hjá Lúðrasveit B þar sem lögð var áhersla á tónlist fyrir þau verkefni sem framundan voru hjá sveitinni á þessari önn, m.a. Stórtónleikar með Forskóla 2 í Stapa sem haldnir þann 21. mars n.k.

Peter Maté leiðbeinir heppnum píanónemanda í Bergi

Þriðja verkefnið sem var í gangi í Tónlistarskólanum á þessum fyrri hluta laugardagsins var Masterklass á vegum píanódeildar skólans fyrir lengst komnu nemendur deildarinnar. Það var enginn annar en Peter Maté píanóleikari sem hlustaði á sjö nemendur flytja verk eftir F. Chopin, E. Grieg, J.S. Bach og W.A. Mozart, og leiðbeindi hverjum og einum nemanda að loknum flutningi og gaf góð ráð. Kennarar píanódeildarinnar voru sömuleiðis viðstaddir því alltaf er gott að heyra og sjá aðra vinna með nemendum.

Fjórða verkefni dagsins var þátttaka gítarsveita skólans í hinum árlega “Gítarsveitadegi”. Gítarsveitadagurinn er árlegt samstarfsverkefni Tónlistarskóla Reykjanesbæjar og nokkurra tónlistarskóla á höfuðborgarsvæðinu og að þessu sinni var dagurinn haldinn í Tónlistarskóla Hafnarfjarðar, með tónleikum í lok dags í Víðistaðakirkju. Að þessu sinni var fenginn erlendur gestakennari, Matthew McAllister, til að vinna með gítarsveitunum ásamt gítarkennurum viðkomandi tónlistarskóla og tónleikarnir í Viðistaðakirkju voru að venju glæsilegir.

Frá lokatónleikum Gítarsveitadagsins sem haldnir voru að þessu sinni í Víðistaðakirkju í Hafnarfirði

Á sunnudeginum tók svo Léttsveit Tónlistarskólans þátt í “Stórsveitamaraþoni” sem Stórsveit Reykjavíkur stendur fyrir á hverju ári. Maraþonið fór fram í salnum Flóa í Hörpu og var gerður góður rómur að leik Léttsveitarinnar sem flutti þar fjögur hressileg lög í glæsilegum stórsveitaútsetningum.

Við í Tónlistarskólanum erum heldur betur stolt og ánægð með hversu duglegir nemendur okkar eru, hvort heldur er að spila fyrir okkar fólk og styrkja böndin innan skólans, læra nýja hluti og reyna að bæta okkur, taka þátt í samstarfsverkefnum við nágranna og vini eða koma fram utan skólans í stórum tónleikahúsum. Þó það séu ekki allar helgar svona rosalega viðburðarríkar má samt með sanni segja að það sé nóg um að vera hjá Tónlistarskóla Reykjanesbæjar.

Hljóðfærakynning 2024


Hljóðfærakynning fyrir Forskóla 2.

Tónlistarskóli Reykjanesbæjar efnir til hinnar árlegu hljóðfærakynningar fyrir nemendur Forskóla 2, laugardaginn 9. mars n.k. Þetta er viðburðurinn sem við urðum að fella niður í febrúar vegna heitavatnsskorts.

Nemendur í Forskóla 2 eru öll börn í Reykjanesbæ í 2. bekk grunnskólanna. 

Dagskráin hefst kl.10:30 í Rokksafni Íslands í Hljómahöll, með stuttum tónleikum forskólanemendanna þar sem þeir flytja 2 hressileg lög við undirleik kennarahljómsveitar tónlistarskólans. Að tónleikunum loknum fá nemendurnir kynningar í stofum tónlistarskólans á þeim hljóðfærum sem hæfa ungum börnum að hefja nám á að loknu forskólanáminu. Það verða kennarar skólans sem sjá um kynningarnar. Nemendur forskólans fá að handleika og prófa hljóðfærin og munu tónlistarkennararnir leiðbeina þeim við það. 

Hljóðfærakynningunni og þar með dagskránni, lýkur kl.12:15.

Óbreytt kennsla á morgun, mánudag 12. febrúar


Nú er það orðið ljóst að skólastarf hjá okkur í Tónlistarskólanum verður á morgun og næstu daga skv. stundatöflu, bæði hér í húsi og út í grunnskólunum, þrátt fyrir að ennþá sé ekkert heitt vatn í húsum. Það sama er hjá leik- og grunnskólum Reykjanesbæjar.

Búið er að koma fyrir hljóðlátum hitunartækjum í kennslustofum sem ættu að duga vel. Í sumum stofum gengur reyndar brösuglega að halda tækjunum gangandi vegna útsláttar, en vonandi tekst að skipta út öryggjum í rafmagnstöflum fyrir þau rými í fyrramálið.

Það á jafnframt að vera búið að koma fyrir hitunartækjum í forskólastofum og hljóðfærakennslustofum í grunnskólunum, svo það á allt að vera í stakasta lagi þar.

Dagur tónlistarskólanna 2024 og forskólakynning

Gylfi Þ. Gíslason, alþingismaður og tónskáld.

Tónlistarskólar landsins eru um 90 talsins og standa fyrir fjölbreyttu og öflugu skólastarfi. Hátíðisdagur þeirra, „Dagur tónlistarskólanna“, er haldinn 7. febrúar ár hvert. Þann dag fæddist Gylfi Þ. Gíslason sem var menntamálaráðherra frá 1956-1971, en hann hefur gjarnan verið kallaður „faðir íslenskra tónlistarskóla“. Gylfi kom því í gegn á ráðherratíð sinni að sveitarfélög sem hefðu hug á því að stofna tónlistarskóla fengju til þess styrk úr ríkissjóði sem næmi 25% af launakostnaði. Síðar var hann aðal hvatamaðurinn að því að launaframlag ríkisins var aukið í 50% sem varð sveitarfélögum enn meiri hvatning til að stofna tónlistarskóla og þá fjölgaði þeim umtalsvert. Íslenskt tónlistarlíf og -menntun mun alla tíð búa að framsýni Gylfa Þ. Gíslasonar og áhuga hans á aukinni, markvissri tónlistarmenntun þjóðarinnar.

Í tilefni af Degi tónlistarskólanna hafa íslenskir tónlistarskólar efnt til ýmis konar viðburða og/eða kynninga í gegn um tíðina með það að markmiði að auka sýnileika og styrkja tengsl við nærsamfélagið.Tónlistarskóli Reykjanesbæjar hefur ekki verið eftirbátur annarra í því og hefur alla tíð haldið þessum degi á lofti.

Miðvikudaginn 7. febrúar n.k. verður haldinn einn af hinum reglubundnu „17:30 nemendatónleikum“ skólans, en vegna þess að tónleikana ber upp á Dag tónlistarskólanna verða þeir veglegri en oftast áður. Að sjálfsögðu eru allir velkomnir.

En veislan heldur áfram og í tilefni af Degi tónlistarskólanna efnir skólinn til hljóðfærakynningar í Tónlistarskólanum, laugardaginn 10. febrúar n.k. fyrir nemendur í Forskóla 2, en það eru öll börn í Reykjanesbæ í 2. bekk grunnskólanna. Dagskráin hefst kl.10:30 í Rokksafni Íslands í Hljómahöll, með stuttum tónleikum forskólanemendanna þar sem þeir flytja 2 hressileg lög við undirleik kennarahljómsveitar tónlistarskólans. Að tónleikunum loknum fá forskólanemendurnir kynningar í stofum tónlistarskólans á þeim hljóðfærum sem hæfir ungum börnum að hefja nám á að forskólanáminu loknu. Það verða kennarar skólans sem sjá um kynningarnar. Nemendur forskólans fá jafnframt að prófa hljóðfærin og munu tónlistarkennararnir leiðbeina þeim. Hljóðfærakynningunni lýkur kl. 12:15 og þar með dagskránni.

Tónvísir


Hið árlega fréttabréf Tónlistarskólans sem ber heitið Tónvísir hefur verið gefið út, en þar má finna tíma- og dagsetningar fyrir alla jólatónleika skólans.
Við minnum á að aðgangur er ókeypis og allir eru velkomnir á alla tónleikana.

Síðasti kennsludagur er svo miðvikudaginn 20. desember og kennsla hefst að nýju föstudaginn 4. janúar 2024.