Jólatónleikar

Nú er jólavertíðin að skella á í öllu sínu veldi. Hér til hliðar á viðburðardagatali okkar eru komnir inn allir okkar jólatónleikar en samtals eru 26 tónleikar á dagsskrá hjá okkur í aðdragenda jóla. Það eru allir velkomnir á þessa tónleika og er aðgangseyrir enginn.

Einnig er hægt að nálgast allar upplýsingar um jólatónleikana og margt fleira í nýjustu útgáfu Tónvísis, fréttabréfi skólans hér

Tónleikar á næstunni

Léttsveit TK/TR 30 ára!

Léttsveit TK var stofnuð í september fyrir 30 árum síðan. Nú höldum við tónleika í tilefni afmælisins. Fram koma Léttsveit Tónlistarskóla Reykjanesbæjar undir stjórn Eyþórs Kolbeins og Stórsveit Suðurnesja, sem samanstendur af meðlimum fyrri sveita, undir stjórn Karenar Sturlaugsson. Allir velkomnir, sérstaklega fyrrverandi meðlimir! Aðgangur ókeypis.

Dagur íslenskrar tungu – tónleikar
Tónleikar píanó og söngnemenda við Tónlistarskóla Reykjanesbæjar.

Degi íslenskrar tungu, fæðingardegi Jónasar Hallgrímssonar, verður fagnað með tónleikum föstudaginn 16. nóvember n.k.  kl. 17:30 í Bergi, Hljómahöll. 
Á tónleikunum munu söngnemendur flytja lög við ljóð nokkurra helstu skálda þjóðarinnar
við undirleik píanónemenda.
Þetta er í fyrsta skipti sem hljómborðsdeild og söngdeild tónlistarskólans
halda tónleika af þessu tilefni.
Allir hjartanlega velkomnir!

Hausttónleikar Lúðrasveit TR
Lúðrasveitir skólans koma fram og spila efni sem nemendur þeirra hafa æft í haust. Lúðrasveitirnar eru tvær og er yngri sveitinni stjórnað af Þórörnu Salómé Brynjólfsdóttur og Ragnheiði Eir Magnúsdóttur, eldri sveitinni stjórna Harpa Jóhannsdóttir og Þorvaldur Halldórsson. Tónleikarnir eru þriðjudaginn 20. nóv kl.18:00 í Stapa. Allir velkomnir!

Fiðlarinn á þakinu – Prufusöngur

Fiðlarinn á þakinu

Tónlistarskóli Reykjanesbæjar verður 20 ára haustið 2019 og af því tilefni ætlar skólinn að setja upp söngleikinn Fiðlarann á þakinu í samstarfi við Óperufélagið Norðuróp.

Um er að ræða all stóra uppfærslu, en hlutverkin eru 22, auk hljómsveitar og kórs, sem hefur jafnframt hlutverk dansara.

Haldinn verður prufusöngur fyrir hlutverk og einnig fyrir kórmeðlimi,mánudaginn 1. október kl.17-18 í Bergi, Hljómahöll.

Þeir sem ætla í prufusöng, þurfa að mæta með 1 lag og undirleik á nótum fyrir píanó eða undirspil í síma eða öðru slíku.

Athugið að prufusöngurinn er opinn öllum nemendum skólans sem og prufusöngur fyrir kórinn.

Fiðlarinn á þakinu er einn þekktasti söngleikur allra tíma og hefur farið sigurför um heiminn frá því hann frumfluttur árið 1964.
Hann byggir á bókinni „Tevje og dætur hans“ eftir Sholem Aleichem. Tónlistin var gerð fyrir Broadway en í henni gætir áhrifa klezmertónlistar gyðinga.
Í Fiðlaranum eru þekkt lög eins og t.d. „Ef ég væri ríkur“ og „Sól rís, sól sest“.
Sagan gerist í Rússlandi í upphafi 20. aldar á tímum rússneska keisarans. Tevje og fjölskylda hans eru gyðingar en fjölskylduföðurnum þykir dæturnar full frjálslegar í trúnni og ekki vanda val sitt á eiginmönnum.
Hann óttast að gyðinglegur uppruni fjöl­skyldunnar muni þynnast út með tíð og tíma. Ekki bætir úr skák þegar keisarinn tekur að hrekja gyðinga burt úr þorpum sínum

Upphaf skólaársins 2018

Nú eru kennarar mættir til vinnu og hefst formleg kennsla mánudaginn 27. ágúst. Umsjónakennarar munu hafa samband við sína nemendur á næstu dögum með allar upplýsingar varðandi hóp- og einkakennslu.

Síðustu dagar vetrarins

Nú er ekki mikið eftir af kennslu í vetur og ættu allir nemendur skólans að vera að undirbúa sig fyrir vortónleika. Allar upplýsingar um það sem eftir er er að finna í fréttabréfi skólans, Tónvísi, hér að ofan og dagsskrá vortónleikanna er einnig að finna í „Viðburðir“ hér að ofan.

Síðasti kennsludagur vetrarins er föstudagurinn 25. maí og skólaslit fara fram í Stapa fimmtudaginn 31. maí kl.18:00. Gert er ráð fyrir því að allir nemendur skólans mæti þangað.

Umsóknir nýrra nemenda um skólavist skólaárið 2018-2019 eru undir hnappnum „Nýjar umsóknir“ hér að ofan. Einnig er hægt að sækja um skriflega á umsóknareyðublöðum sem liggja frammi á skrifstofu skólans að Hjallavegi 2.
Umsóknarfrestur er ekki takmarkaður, en æskilegt er að umsóknir berist fyrir 1. júní n.k.
Tekið er inn í laus pláss skv. dagsetningum umsókna.

Frá barni til barns – styrktartónleikar

Píanó-, harmoníku- og hljómborðsnemendur Tónlistarskóla Reykjanesbæjar efna til styrktartónleika fyrir langveik börn í Reykjanesbæ, laugardaginn 14. apríl.  Röð 6 stuttra tónleika hefst kl. 11 sem verða á hálfa og heila tímanum til kl. 14. Tónleikarnir fara fram í Bergi , Hljómahöll. Hægt er að tryggja sér miða á tónleikana með frjálsum framlögum inn á reikning no. 0142-15-010366 kt. 3006584829, en einnig verða seldir miðar við innganginn í Berg.

Listmarkaður áhuga- og atvinnulistamanna verður opinn meðan á tónleikaröðinni stendur og rennur allur ágóði af sölu listaverka hvort sem þau eru í orði, tónum eða litum, óskert til málefnisins sem stuðningur hinna fullorðnu við framtak barnanna.

Að auki verður kaffihús á listmarkaðnum þar sem flutt verður tónlist af nemendum. Allur ágóði af sölu veitinga rennur sömuleiðis óskertur til málefnisins.

Söfnun beinna styrkja er hafin og hægt er að leggja framlag til langveikra barna í Reykjanesbæ inn á ofangreint reikningnúmer. Reikningurinn verður opinn til 14. maí 2018.

Skorað er á alla áhugalistamenn í Reykjanesbæ að skoða hvort þeir eigi í fórum sínum frumsamið hugverk, handverk, myndverk eða hvað annað af þessum toga sem viðkomandi vill gefa á listmarkaðinn til stuðnings þessa mikilvæga málefnis.

Slík framlög má tilkynna í síma Tónlistarskólans 420 1400 frá og með 4.apríl.

Sýnum samhug okkar í verki !

Hljóðfærakynning fyrir Forskóla 2

Tónlistarskólinn býður nemendum í Forskóla 2 upp á hljóðfærakynningar laugardaginn 17. mars frá kl. 11.00-12.00
Hljóðfærakynningin fer fram í Tónlistarskólanum, Hjallavegi 2 (Hljómahöll)

Á kynningunni gefst nemendum tækifæri til að skoða og prófa flest þau hljóðfæri sem kennt er á í Tónlistarskólanum.
Um leið gefst forráðamönnum tækifæri til þess að ræða við kennara og/eða skólastjórnendur um fyrirkomulag hljóðfæranáms við skólann.