Síðustu dagar vetrarins

Nú er ekki mikið eftir af kennslu í vetur og ættu allir nemendur skólans að vera að undirbúa sig fyrir vortónleika. Allar upplýsingar um það sem eftir er er að finna í fréttabréfi skólans, Tónvísi, hér að ofan og dagsskrá vortónleikanna er einnig að finna í „Viðburðir“ hér að ofan.

Síðasti kennsludagur vetrarins er föstudagurinn 25. maí og skólaslit fara fram í Stapa fimmtudaginn 31. maí kl.18:00. Gert er ráð fyrir því að allir nemendur skólans mæti þangað.

Umsóknir nýrra nemenda um skólavist skólaárið 2018-2019 eru undir hnappnum „Nýjar umsóknir“ hér að ofan. Einnig er hægt að sækja um skriflega á umsóknareyðublöðum sem liggja frammi á skrifstofu skólans að Hjallavegi 2.
Umsóknarfrestur er ekki takmarkaður, en æskilegt er að umsóknir berist fyrir 1. júní n.k.
Tekið er inn í laus pláss skv. dagsetningum umsókna.

Frá barni til barns – styrktartónleikar

Píanó-, harmoníku- og hljómborðsnemendur Tónlistarskóla Reykjanesbæjar efna til styrktartónleika fyrir langveik börn í Reykjanesbæ, laugardaginn 14. apríl.  Röð 6 stuttra tónleika hefst kl. 11 sem verða á hálfa og heila tímanum til kl. 14. Tónleikarnir fara fram í Bergi , Hljómahöll. Hægt er að tryggja sér miða á tónleikana með frjálsum framlögum inn á reikning no. 0142-15-010366 kt. 3006584829, en einnig verða seldir miðar við innganginn í Berg.

Listmarkaður áhuga- og atvinnulistamanna verður opinn meðan á tónleikaröðinni stendur og rennur allur ágóði af sölu listaverka hvort sem þau eru í orði, tónum eða litum, óskert til málefnisins sem stuðningur hinna fullorðnu við framtak barnanna.

Að auki verður kaffihús á listmarkaðnum þar sem flutt verður tónlist af nemendum. Allur ágóði af sölu veitinga rennur sömuleiðis óskertur til málefnisins.

Söfnun beinna styrkja er hafin og hægt er að leggja framlag til langveikra barna í Reykjanesbæ inn á ofangreint reikningnúmer. Reikningurinn verður opinn til 14. maí 2018.

Skorað er á alla áhugalistamenn í Reykjanesbæ að skoða hvort þeir eigi í fórum sínum frumsamið hugverk, handverk, myndverk eða hvað annað af þessum toga sem viðkomandi vill gefa á listmarkaðinn til stuðnings þessa mikilvæga málefnis.

Slík framlög má tilkynna í síma Tónlistarskólans 420 1400 frá og með 4.apríl.

Sýnum samhug okkar í verki !

Hljóðfærakynning fyrir Forskóla 2

Tónlistarskólinn býður nemendum í Forskóla 2 upp á hljóðfærakynningar laugardaginn 17. mars frá kl. 11.00-12.00
Hljóðfærakynningin fer fram í Tónlistarskólanum, Hjallavegi 2 (Hljómahöll)

Á kynningunni gefst nemendum tækifæri til að skoða og prófa flest þau hljóðfæri sem kennt er á í Tónlistarskólanum.
Um leið gefst forráðamönnum tækifæri til þess að ræða við kennara og/eða skólastjórnendur um fyrirkomulag hljóðfæranáms við skólann.

 

Þrennir stórtónleikar

Í næstu viku verður margt um dýrðir hjá okkur því þá verða þrennir stórtónleikar. 

Tvennir Forskólatónleikar verða haldnir í Stapa, Hljómahöll,  þriðjudaginn 6. mars.
Fram koma Forskóli 2 ásamt Lúðrasveit og Rokkhljómsveit.
Fyrri tónleikarnir hefjast kl. 17.
Fram koma nemendur úr Akurskóla, Akurskóla – stofum við Dalsbraut, Háaleitisskóla og Holtaskóla.
Seinni tónleikarnir hefjast kl.18.
Fram koma nemendur úr Heiðarskóla, Myllubakkaskóla og Njarðvíkurskóla.

Svo verða tónleikar lengra kominna nemenda verða haldnir í Bergi, Hljómahöll, miðvikudaginn 7. mars kl.19.30. Fjölbreytt og spennandi efnisskrá.

Það eru allir velkomnir á þessa tónleika á meðan húsrúm leyfir og er enginn aðgangseyrir! 

Dagur Tónlistarskólanna

ATH! – Vegna óviðráðanlegra aðstæðna þurfum við að hætta við fyrirhugaða dagsská í tilefni af Degi Tónlistarskólanna laugardaginn 17. febrúar.

Tónlistarskólar landsins eru um níutíu talsins og standa fyrir gríðarlega fjölbreyttu og öflugu skólastarfi. Einn dagur á ári „Dagur tónlistarskólanna“ er tileinkaður þeim og efna skólarnir þá til ýmiskonar viðburða til að brjóta upp skólastarfið og vekja athygli á starfsemi sinni. Markmiðið er að auka sýnileika og styrkja tengsl tónlistarskóla við nærsamfélagið.

Dagur tónlistarskólanna er haldinn annan laugardag í febrúar ár hvert, sem að þessu sinni ber upp á þann 10. febrúar. Dagurinn verður haldinn hátíðlega laugardaginn 17. febrúar í Tónlistarskóla Reykjanesbæjar.

Tónlistarskóli Reykjanesbæjar heldur Dag tónlistarskólanna hátíðlegan að venju með fjölbreyttri dagskrá í Tónlistarskólanum, Hjallavegi 2 sem hefst með opnun Kaffihúss Strengjadeildar kl.10.45 en ágóðinn rennur í ferðasjóð Strengjadeildar.  Nemendur Forskóla 2 fá hljóðfærakynningu og prufutíma á hljóðfæri frá kl.11-12 og á sama tíma verða „Ör-tónleikar“ á þremur tónleikastöðvum í skólanum. Tónfræðikeppnin Kontrapunktur hefst  kl.12 í tónleikasalnum Bergi og endar dagsskrá dagsins með tónleikum þar sem hljómsveitir kallast á á göngum skólans.

Dagsskrá:

10.45 Kaffihús Strengjadeildar opnar
11.00 -12.00 Hljóðfærakynningar og prufutímar fyrir nemendur Forskóla 2
                       Ör-tónleikar til skiptis á 3 tónleikastöðvum í skólanum
12.00-12.50 Tónfræðikeppnin Kontrapunktur í Bergi. Öllum velkomið að fylgjast með
12.50 „Hljómsveitir kallast á“. Strengja-/Gítarsveit og yngri Lúðrasveit „tala saman“

Tónver skólans starfrækir netsjónvarp á Facebooksíðu hans meðan á dagskránni stendur

Kaffihús Strengjadeildar verður opið frá 10.45-13.15
Ágóðinn rennur í ferðasjóð Strengjadeildar

Allir hjartanlega velkomnir

Rástefna Íslandsdeildar EPTA

Sunnudaginn 14. janúar 2018 verður haldin Innanlandsráðstefna EPTA í Bergi tónleika- og fyrirlestrarsal Tónlistarskóla Reykjanesbæjar frá kl. 10:00-19:00.

Dagskrá Innanlandsráðstefnunnar verður fjölbreytt og metnaðarfull, Björg Brjánsdóttir flautuleikari kynnir Timaniaðferðina um góða líkamsbeitingu við hljóðfæraleik, Bjargey Þrúður Ingólfsdóttir, deildarstjóri hljómborðsdeildar í Tónlistarskóla Reykjanesbæjar fjallar um spunakennslu píanónema, Kári Árnason, sjúkraþjálfari fjallar um áhrif hljóðfæraleiks á stoðkerfið og Sunna Gunnlaugsdóttir, jazzpíanóleikari fjallar um kennslu í ritmísku píanónámi. Prófessor Julia Mustonen-Dahlkvist, deildarstjóri píanódeildar Ingesund College of Music við háskólann í Karlstad fjallar um undirbúning nemenda fyrir keppnir og situr fyrir svörum ráðstefnugesta en nemendur hennar hafa unnið til verðlauna víða um heim. Ráðstefnunni lýkur með með spennandi tónleikum nemanda Mustonen-Dahlkvist og rísandi stjörnu í píanóheiminum, Aristo Sham sem hlotið hefur fjölmörg verðlaun í alþjóðlegum keppnum á ferli sínum. Á efnisskránni verða verk eftir Scarlatti, Scriabin, Liszt, Brahms og Barber.

Hægt verður að kaupa dagspassa samdægurs á ráðstefnuna og einnig verður hægt að kaupa miða á tónleika Aristo Sham eingöngu sem hefjast kl. 17:30. Verð dagspassa: kr. 15.000 (innifalið súpa og kaffi) og verð tónleikamiða: kr. 2500 / 1500 fyrir námsmenn, aldraða og öryrkja.

Dagskrá ráðstefnunar má nálgast hér http://epta.is/is/  og á fb síðu ráðstefnunnar

https://www.facebook.com/events/959240370891969/permalink/959313224218017/

Gleðileg jól!

Tónlistarskólinn óskar nemendum sínum, forráðamönnum og öllum íbúum Reykjanesbæjar gleðilegra jóla og farsældar á nýju ári. Nú erum við komin í jólafrí og hefst kennsla aftur fimmtudaginn 4. janúar!