Hljóðfærakynning 2024


Hljóðfærakynning fyrir Forskóla 2.

Tónlistarskóli Reykjanesbæjar efnir til hinnar árlegu hljóðfærakynningar fyrir nemendur Forskóla 2, laugardaginn 9. mars n.k. Þetta er viðburðurinn sem við urðum að fella niður í febrúar vegna heitavatnsskorts.

Nemendur í Forskóla 2 eru öll börn í Reykjanesbæ í 2. bekk grunnskólanna. 

Dagskráin hefst kl.10:30 í Rokksafni Íslands í Hljómahöll, með stuttum tónleikum forskólanemendanna þar sem þeir flytja 2 hressileg lög við undirleik kennarahljómsveitar tónlistarskólans. Að tónleikunum loknum fá nemendurnir kynningar í stofum tónlistarskólans á þeim hljóðfærum sem hæfa ungum börnum að hefja nám á að loknu forskólanáminu. Það verða kennarar skólans sem sjá um kynningarnar. Nemendur forskólans fá að handleika og prófa hljóðfærin og munu tónlistarkennararnir leiðbeina þeim við það. 

Hljóðfærakynningunni og þar með dagskránni, lýkur kl.12:15.

Óbreytt kennsla á morgun, mánudag 12. febrúar


Nú er það orðið ljóst að skólastarf hjá okkur í Tónlistarskólanum verður á morgun og næstu daga skv. stundatöflu, bæði hér í húsi og út í grunnskólunum, þrátt fyrir að ennþá sé ekkert heitt vatn í húsum. Það sama er hjá leik- og grunnskólum Reykjanesbæjar.

Búið er að koma fyrir hljóðlátum hitunartækjum í kennslustofum sem ættu að duga vel. Í sumum stofum gengur reyndar brösuglega að halda tækjunum gangandi vegna útsláttar, en vonandi tekst að skipta út öryggjum í rafmagnstöflum fyrir þau rými í fyrramálið.

Það á jafnframt að vera búið að koma fyrir hitunartækjum í forskólastofum og hljóðfærakennslustofum í grunnskólunum, svo það á allt að vera í stakasta lagi þar.

Dagur tónlistarskólanna 2024 og forskólakynning

Gylfi Þ. Gíslason, alþingismaður og tónskáld.

Tónlistarskólar landsins eru um 90 talsins og standa fyrir fjölbreyttu og öflugu skólastarfi. Hátíðisdagur þeirra, „Dagur tónlistarskólanna“, er haldinn 7. febrúar ár hvert. Þann dag fæddist Gylfi Þ. Gíslason sem var menntamálaráðherra frá 1956-1971, en hann hefur gjarnan verið kallaður „faðir íslenskra tónlistarskóla“. Gylfi kom því í gegn á ráðherratíð sinni að sveitarfélög sem hefðu hug á því að stofna tónlistarskóla fengju til þess styrk úr ríkissjóði sem næmi 25% af launakostnaði. Síðar var hann aðal hvatamaðurinn að því að launaframlag ríkisins var aukið í 50% sem varð sveitarfélögum enn meiri hvatning til að stofna tónlistarskóla og þá fjölgaði þeim umtalsvert. Íslenskt tónlistarlíf og -menntun mun alla tíð búa að framsýni Gylfa Þ. Gíslasonar og áhuga hans á aukinni, markvissri tónlistarmenntun þjóðarinnar.

Í tilefni af Degi tónlistarskólanna hafa íslenskir tónlistarskólar efnt til ýmis konar viðburða og/eða kynninga í gegn um tíðina með það að markmiði að auka sýnileika og styrkja tengsl við nærsamfélagið.Tónlistarskóli Reykjanesbæjar hefur ekki verið eftirbátur annarra í því og hefur alla tíð haldið þessum degi á lofti.

Miðvikudaginn 7. febrúar n.k. verður haldinn einn af hinum reglubundnu „17:30 nemendatónleikum“ skólans, en vegna þess að tónleikana ber upp á Dag tónlistarskólanna verða þeir veglegri en oftast áður. Að sjálfsögðu eru allir velkomnir.

En veislan heldur áfram og í tilefni af Degi tónlistarskólanna efnir skólinn til hljóðfærakynningar í Tónlistarskólanum, laugardaginn 10. febrúar n.k. fyrir nemendur í Forskóla 2, en það eru öll börn í Reykjanesbæ í 2. bekk grunnskólanna. Dagskráin hefst kl.10:30 í Rokksafni Íslands í Hljómahöll, með stuttum tónleikum forskólanemendanna þar sem þeir flytja 2 hressileg lög við undirleik kennarahljómsveitar tónlistarskólans. Að tónleikunum loknum fá forskólanemendurnir kynningar í stofum tónlistarskólans á þeim hljóðfærum sem hæfir ungum börnum að hefja nám á að forskólanáminu loknu. Það verða kennarar skólans sem sjá um kynningarnar. Nemendur forskólans fá jafnframt að prófa hljóðfærin og munu tónlistarkennararnir leiðbeina þeim. Hljóðfærakynningunni lýkur kl. 12:15 og þar með dagskránni.

Tónvísir


Hið árlega fréttabréf Tónlistarskólans sem ber heitið Tónvísir hefur verið gefið út, en þar má finna tíma- og dagsetningar fyrir alla jólatónleika skólans.
Við minnum á að aðgangur er ókeypis og allir eru velkomnir á alla tónleikana.

Síðasti kennsludagur er svo miðvikudaginn 20. desember og kennsla hefst að nýju föstudaginn 4. janúar 2024.

Engin kennsla mánudag 27. nóvember

Næstkomandi mánudag 27.nóvember, verður engin kennsla við skólann, hvorki hóptímar né einkakennsla vegna vinnutímastyttingar kennara og stjórnenda skólans.
Skrifstofa skólans verður einnig lokuð.
Hins vegar er ekkert frí frá heimaæfingum og eru nemendur hvattir til æfa sig sérstaklega vel þennan dag.

Nemendur Tónlistarskóla Reykjanesbæjar á Strengjasveitamóti

Helgina 6. til 8. október 2023 var haldið strengjasveitamót á Akureyri þar sem strengjanemendur af öllu landinu komu saman. Í heildina voru þetta rúmlega 200 börn sem spiluðu á fiðlu, víólu, selló eða á kontrabassa. Skipt var í fjórar hljómsveitir eftir getu og mikið æft fyrir tónleika sem voru haldnir á sunnudeginum í Hofi. Hver hljómsveit spilaði 2-3 lög og að endingu spiluðu allir 200 þátttakendurnir sameiginlega lagið „Á Sprengisandi“. Að sjálfsögðu var fullt út úr dyrum og standandi lófaklapp fyrir þessum frábæru krökkum sem voru búin að leggja svo mikið á sig. 
Tónlistarskólinn í Reykjanesbæ lét sitt ekki eftir liggja og sendi frá sér sex frábæra nemendur sem stóðu sig að sjálfsögðu frábærlega. 

Flottu strengjanemendurnir okkar fyrir framan Hof á Akureyri eftir velheppnaða tónleika.
Frá vinstri: Anton, Elin, Fanney, Berglind, Sóley og Móey.